143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[14:27]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Mér finnst nauðsynlegt að bregðast við ummælum hæstv. fjármálaráðherra, formanns Sjálfstæðisflokksins, um að í þessari umræðu hafi ekkert jákvætt verið sagt um það frumvarp sem hér liggur fyrir. (Gripið fram í.) Það er heldur ekki rétt.

Menn hafa að sjálfsögðu dregið fram það sem þeir telja jákvæðast í þessum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar en um leið dregið fram það sem þeir eru ósammála. Menn hafa leyfi til þess og fært fyrir því ágæt rök.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki verið mjög mikið við umræðuna. Mér vitanlega hafa engir aðrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins tekið þátt í umræðunni um þetta mál en þeir sem eru því andsnúnir. Hér hefur meðal annars verið vitnað í orð úr röðum sjálfstæðismanna, t.d. varaþingmanna Sjálfstæðisflokksins. Ég velti fyrir mér hvort hæstv. fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hlýtt á þau varnaðarorð.

Þessi pakki er, eins og fjármálaráðherra veit, hluti sem hann gagnrýndi sjálfur (Forseti hringir.) í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2013 og taldi óábyrg stjórnmál.