143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:48]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við í Samfylkingunni erum stolt af því kerfi veiðigjalda sem komið var á á síðasta kjörtímabili. Það skiptir miklu máli að tryggja að greitt sé fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar og þar með létt á skattbyrði almennings.

Við erum þeirrar skoðunar að best færi á því að gjaldið réðist í frjálsum viðskiptum á markaði þannig að það endurspeglaði á hverjum tíma afrakstursgetu greinarinnar án þess að um það þyrfti að hafa mörg orð eða leggjast í flókna útreikninga til að finna út auðlindarentu á hverjum tíma.

Í því frumvarpi sem hér kemur til atkvæða er ýmislegt sem til bóta horfir en það er auðvitað stærsta vandamálið og ámælisvert að ríkisstjórnin nýtir þessa ferð eins og allar aðrar þegar veiðigjald er annars vegar til að lækka álögur á útgerðina. Það er ekki í samræmi við þær áherslur sem við viljum leggja.