143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:49]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Okkur hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs finnst mikilvægt að með þeim breytingum sem hafa orðið á þessu frumvarpi er ekki verið að leggja upp í leiðangur til að breyta hugmyndafræði veiðigjalda heldur er þetta gert til bráðabirgða. Við höfum í raun og veru alls ekki haft nægilegan tíma til að ræða slíkar breytingar. Þær munu því bíða heildarendurskoðunar á fiskveiðistjórnarkerfinu og frekari umræðu sem lýtur að því.

Það breytir því ekki að við leggjumst gegn þessu máli enda er hér um verulega viðbótarlækkun á veiðigjöldum að ræða. Við teljum það alranga forgangsröðun í ríkisfjármálum að létta gjöldum af útgerðinni í landinu á sama tíma og við horfum upp á aukna misskiptingu og nýjar tölur um fátækt í samfélaginu, þegar við ættum að huga að því hvernig við getum aukið jöfnuð í samfélaginu en ekki að létta byrðum af breiðu bökunum. Við leggjumst því gegn þessum tillögum um lækkun veiðigjalda.