143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[14:54]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hér greiðum við atkvæði um enn frekari lækkun á veiðigjöldum. Veiðigjöldin voru lækkuð á síðasta ári um 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Í þessu frumvarpi er verið að tala um áframhaldandi lækkun, ekki aðeins 2,8 milljarða lækkun heldur er verið að bæta vel í upp á 1,2 milljarða svo í allt verði 10,5 milljarða lækkun á veiðigjöldum. Ég tel engar rannsóknir eða gögn liggja fyrir um að verjandi sé að lækka veiðigjöld með þessum hætti. Ég er sammála því að við þurfum að endurskoða ákveðnar tegundir og afkomu ákveðinna tegunda og mun vinna að þeirri vinnu áfram. Ég mun styðja lækkun á þrem tegundum þar sem fyrir liggja nægjanleg gögn um þær. Þar er um að ræða úthafskarfa, rækju, lindýr og skrápdýr, en varðandi annað er eingöngu verið að setja puttann upp í loftið og lækka enn frekar veiðigjöld. Þjóðin á rétt á að fá afnotagjald (Forseti hringir.) af þessari auðlind sinni (Forseti hringir.) og verið er að stela af þjóðinni (Forseti hringir.) í þessu frumvarpi. (Gripið fram í: Jess.)