143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[15:11]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um að fella niður veiðigjöld á þessu ári af úthafsrækju og annarri rækju sem er meðal annars vegna þess að í auðlindagjaldi sem talað er um að leggja á er tekið tillit til þess að auðlindarenta í rækju er engin og því ekki eðlilegt að borga af því veiðileyfagjöld.

Auk þess er í b-lið verið að afleggja veiðigjöld eins og í Barentshafi o.fl. þar sem dýrt er að sækja en talið er nauðsynlegt að íslensk skip fari og fiski til að skapa okkur þá reynslu sem við þurfum að hafa vegna þessara veiða. Jafnframt er verið að tala um kolmunnann, og það sama á við um rækjuna, en þar er verið að lækka veiðigjald um helming vegna þess hversu dýrt er að sækja kolmunnann. Það þarf að fara langt og afkoman er mjög léleg í þeim veiðum.