143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:20]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér koma til atkvæða ýmsar breytingar sem voru lagðar fram við 1. umr. málsins þegar það snerist um breytingu á rækju en síðan hefur annað bæst við við vinnslu málsins í nefndinni, ýmis bráðabirgðaákvæði eru felld út, nokkurs konar bráðabirgðahreinsun ef svo má að orði komast. Jafnframt er verið að gera breytingar á því sem við getum kallað litla pottinn eða litlu hlutdeildirnar þannig að aukinn sveigjanleiki verði. Það hefur komið fram í nefndaráliti og hjá hæstv. ráðherra að ekki verði gerðar breytingar á því á næsta fiskveiðiári og á þarnæsta fiskveiðiári verður það ekki gert án þess að koma með þingsályktunartillögu. Allt er þetta til bóta að mínu mati.

Hér er líka verið að gera krókaaflamarksbátum að fiska meiri ýsu í staðinn fyrir ufsa o.s.frv. Í breytingartillögunum er fjallað um að kvótasetja rækju á ný í hlutföllunum 50% á móti 50% sem er breyting frá upphaflegu áformi ríkisstjórnarinnar. Ég vek athygli á því að það var aðeins reglugerðarákvæði þegar rækjuveiðar voru gefnar frjálsar þannig að hæstv. ráðherra hefði getað kvótasett þær samkvæmt gömlu hefðinni ef hann hefði kært sig um en hér með tekur Alþingi í raun og veru ákvörðun (Forseti hringir.) um að innkalla helminginn.