143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:23]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er bandormur laga um sjávarútveg með greinum sem eru af ýmsum toga, dagsetningarmál og annað sem þarf að uppfæra eða láta renna út. Við þessi mál hef ég í sjálfu sér ekki neitt að athuga.

Svo erum við líka með þessa skiptingu á rækjunni hérna sem sátt er um. Það er þó ein grein í frumvarpinu, 8. gr., sem er af töluvert öðrum toga. Hún lýtur að því að færa ráðherra 5,3% skerðingarheimild á heildarafla sem hann getur svo úthlutað aftur eftir stefnumótun sinni til nokkurra ára. Hér er því lagt til að taka pottana úr þeirri mynd sem við þekkjum og setja í hlutfall sem ráðherra úthlutar. Ég er ekkert sérstaklega mikil talskona bitlinga hingað og þangað frá ráðherra eða okkur á þingi en þetta er enn sem komið er allt saman mjög óljóst og hefur ekki verið útfært.

Við í Bjartri framtíð (Forseti hringir.) sitjum hjá við afgreiðslu þessa máls vegna þess fyrirvara sem ég kom með.