143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

stjórn fiskveiða.

153. mál
[15:25]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum hér atkvæði um frumvarpið með stóra nafnið, frumvarp til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða. Það er stórt nafn. Síðan þegar maður lítur á frumvarpið er það nánast ekki neitt.

Það er spurning hvort eigi að dreifa aflareynslu 50/50 eða 30/70. Almáttugur, herra forseti, að hv. Alþingi skuli vera að fjalla um svona mál undir málsheitinu stjórn fiskveiða. Þetta er risamál, stjórn fiskveiða, og á því hefur ekkert verið tekið.

Svo í meðförum nefndarinnar var komið inn alls konar pottum og pönnum fyrir menn til að ráðstafa. Þar komu sérhagsmunirnir inn. Þarna er ákvæði um að ráðherra skuli hafa til ráðstöfunar aflaheimildir sem nemi allt að 300 lestum af óslægðum botnfiski. Þetta heitir hlutdeildarsetning úthafsrækju og rækju á miðunum við Snæfellsnes.

Ég greiði atkvæði með þessu en bara af því að þetta er til bráðabirgða. [Hlátur í þingsal.] (Gripið fram í: Þetta er líka ríkisstjórn til bráðabirgða.)