143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

gjaldskrárlækkanir o.fl.

315. mál
[15:33]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. 21. desember síðastliðinn voru gerðir kjarasamningar og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra komu þá í þennan stól og hétu því að draga til baka gjaldskrárhækkanir sem þeir höfðu ráðist í stuttu áður. Slóðaháttur fjármálaráðherra og röng forgangsröðun ríkisstjórnarinnar olli því að þetta mál er nú fyrst að koma til afgreiðslu hér undir þinglok og búið að breyta gildistökuákvæðinu þannig að í staðinn fyrir að gjaldskrárlækkanirnar gildi allt árið til 1% lækkunar eiga þær bara að gilda seinni hluta ársins.

Með þessari breytingartillögu gef ég ríkisstjórnarmeirihlutanum færi á því að hækka prósentuna þannig að lækkunin verði 2% í staðinn fyrir að hún verði 1% og bara á seinni hluta ársins. Þá hefur ríkisstjórnin alla vega ekki lengur afsökun í eigin slóðahætti og rangri forgangsröðun fyrir því að svíkja kjarasamninga heldur fær hún tækifæri til að efna raunverulega það sem lofað var. Það er athyglisvert að sjá hér á töflunni að ríkisstjórnin reynir ekki einu sinni að bæta fyrir eigin hyskni.