143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

verslun með áfengi og tóbak.

156. mál
[15:38]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Þetta mál var æðimikið rætt í efnahags- og viðskiptanefnd, og fórum við m.a. í vettvangskönnun upp í ÁTVR til að afla gagna. [Hlátur í þingsal.] Ég sannfærðist um það við meðferð nefndarinnar, algerlega án áhrifa áfengis, að mikil þörf er á því að endurskoða alla lagaumgjörð um áfengisverslun á Íslandi og hið svokallaða auglýsingabann.

Þegar við ræddum þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd blasti alltaf við út um gluggann stórt auglýsingaskilti um Reyka vodka, sem sýnir hversu hriplekt þetta auglýsingabann er og mikil þörf á því að færa það til nútímans.

Í þessu frumvarpi eru að sjálfsögðu ákvæði sem hnykkja á samfélagslegri ábyrgð ÁTVR, vínbúðinni á Íslandi. Eitt ákvæði varð mjög umdeilt, svokallað keimlíkindaákvæði sem færði ÁTVR eða vínbúðunum allt of ríka heimild til að hafna vörum í sölu á grundvelli keimlíkinda við aðrar óáfengar vörur. Við breyttum því ákvæði og ég styð þá breytingu með þeim fyrirvara að ég lít svo á að hér sé bara um neytendavernd að ræða til að koma í veg fyrir að fólk ruglist á áfengri og (Forseti hringir.) óáfengri vöru, sem getur verið mjög bagalegt og haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar.