143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

útlendingar.

249. mál
[15:46]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Við greiðum hér atkvæði um breytingar á útlendingalögum. Nefndin hefur farið vel yfir málið og er með allnokkrar breytingartillögur. Það eru tvö nefndarálit í þessu máli og breytingartillögur jafnframt frá minni hlutanum. Engu að síður var ágætissamstaða í nefndinni og ég vonast til þess að breytingartillögur okkar í meiri hlutanum hljóti brautargengi. Hér er á ferðinni mál þar sem verið er að innleiða nýtt úrræði, þ.e. að sett verði á fót sérstök úrskurðarnefnd, kærunefnd útlendingamála, sem mun breyta mjög miklu varðandi málsmeðferðina, vonandi gera hana skjótvirkari og sýna að við ætlum okkur að vera með vandaðri og betri vinnubrögð og jafnframt að auka málshraðann.