143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

útlendingar.

249. mál
[15:46]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Mjög góður andi hefur ríkt um vinnuna í sambandi við þetta frumvarp en þó er það þannig að á lokametrunum er ágreiningur um tvö atriði og þar flytjum við breytingartillögu. Það er annars vegar um það að málsmeðferð í málum hælisleitenda skuli fyrst og fremst vera munnleg, þó með heimild til að vera skrifleg en ekki öfugt. Þetta er áherslumunur sem við höfum en við óskum eftir að sú tillaga verði flutt á undan vegna þess að við munum styðja það ákvæði að þessari tillögu felldri ef það verður vilji þingsins.

20. gr. fjallar um örugg upprunaríki og við gerum tillögu um að sú tillaga falli út og treystum okkur ekki til að mæla með þeirri grein sérstaklega. Að öðru leyti munum við styðja lögin vegna þess að kærunefnd í útlendingamálum og annað slíkt, sem hér er í þessum lögum, er mjög til bóta og unnin hefur verið vönduð vinna í hv. allsherjar- og menntamálanefnd í sambandi við þetta mál.