143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fjármálastöðugleikaráð.

426. mál
[16:05]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta frumvarp komi hér til atkvæða og þakka samvinnu í nefndinni og við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um endanlegan útbúnað þessa frumvarps. Undirbúningur að verkinu var hafinn í efnahags- og viðskiptaráðherratíð minni.

Það er mjög mikilvægt að búa til almennilega umgjörð um fjármálastöðugleika. Það var eitt af þeim atriðum sem skorti á í aðdraganda hruns. Þetta er eitt af þeim málum sem ný ríkisstjórn hefur unnið áfram í góðri sátt við þá vinnu sem lagður var grunnur að í tíð fyrri ríkisstjórnar.

Við höfum gert breytingar á málinu í meðförum þingsins m.a. til þess að tryggja aðkomu stjórnarandstöðu og upplýsingaskipti við hana. Það á að vera stöðug áminning fyrir okkar um að það skiptir miklu máli að stjórnarandstaða sé upplýst um mikilvæg atriði er varða efnahags- og fjármál landsins. Síðast hafa til dæmis ráðherrar tjáð sig um samning milli gamla og nýja Landsbankans sem ekki hefur verið kynntur formlega á nokkurn hátt fyrir okkur í stjórnarandstöðunni. Það verður gert í næstu viku, en þetta er mjög gott dæmi um hversu mikilvægt það er að upplýsingar (Forseti hringir.) séu öllum tiltækar þvert á stjórnmálaflokka.