143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

fiskeldi.

319. mál
[16:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Hér er um að ræða atvinnuveg sem sannarlega getur orðið stór og mikill en er mjög vandmeðfarinn. Við þekkjum það af reynslu annarra þjóða að menn hafa séð mikil umhverfisslys í tengslum við atvinnuveginn. Ég tel að það sé ekki gott hversu seint málið kom fram. Ég veit að hv. nefnd hefur unnið ötullega að því og reynt að sníða af því helstu gallana en ég hef ákveðnar áhyggjur af þáttum eins og hvernig skuli haga umhverfisvöktum í á þar sem villtir laxastofnar eru fyrir og hverjir muni axla fjárhagslegt tjón sem veiðiréttareigendur geta orðið fyrir. Svo finnst mér ekki alveg sjálfgefið að það muni einfalda leyfisveitingar og eftirlit að koma þessu yfir til Matvælastofnunar.

Hins vegar hefur frumvarpið lagast í meðförum hv. nefndar. Það er einnig mjög mikilvægt að kveðið er á um að það eigi að endurskoða þessa löggjöf í heild sinni. Ég tel það afskaplega mikilvægt (Forseti hringir.) og þá sérstaklega með hagsmuni umhverfisins í huga.