143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

mótmæli gegn ofsóknum gegn samkynhneigðum í Úganda.

348. mál
[17:09]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Hæstv. forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta mál og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti og Þróunarsamvinnustofnun. Málið á rætur sínar að rekja til lagasetningar í Úganda fyrr í vetur sem raunar er í takt við lagasetningu sem sést hefur í ýmsum löndum Afríku sunnan Sahara á undanförnum árum þar sem verulega íþyngjandi er þrengt að réttindabaráttu samkynhneigðra. Þetta mál var því að gefnu tilefni og í upprunalega tillögutextanum sem lagður var fram í febrúar var meðal annars gert ráð fyrir því að utanríkisráðherra hefði uppi á alþjóðavettvangi hörð mótmæli vegna þessarar lagasetningar og beitti ýmsum aðgerðum í því skyni. Í öðru lagi var gert ráð fyrir að skoðað yrði hvort breytingarnar kölluðu með einhverjum hætti á að breyta fyrirkomulagi þróunaraðstoðar Íslands gagnvart Úganda og eins að Ísland hefði forgöngu um samstöðu líkt þenkjandi ríkja varðandi aðgerðir í þessu sambandi.

Frá því að tillagan var lögð fram í febrúar og þangað til hún var afgreidd nú í maí gerðist ýmislegt í þessum efnum. Eins og fram kemur í nefndarálitinu hefur utanríkisráðherra mótmælt harðlega á alþjóðavettvangi lagasetningunni sem þarna átti sér stað og eins hefur utanríkisráðherra átt samstarf við kollega sína í öðrum löndum um yfirlýsingar í þessa átt.

Engu að síður taldi utanríkismálanefnd mikilvægt að Alþingi ályktaði um málið og leggur hún til að tillagan sem upprunalega lá fyrir verði samþykkt með breytingum sem taka mið af því sem gerst hefur í málinu frá því að tillagan var upphaflega lögð fram. Eins tókum við tillit til ábendinga frá þeim sérfræðingum okkar á þessu sviði sem best þekkja til í Úganda en þar var eingöngu um minni háttar orðalagsbreytingar að ræða.

Nefndin leggur sem sagt til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

„2. mgr. tillögugreinarinnar orðist svo:

Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að ítreka hörð mótmæli íslenskra stjórnvalda gagnvart stjórnvöldum í Úganda vegna þeirra mannréttindabrota sem í löggjöfinni felast og jafnframt að fara yfir fyrirkomulag þróunaraðstoðar við Úganda með það fyrir augum að auka fjárframlög til samtaka samkynhneigðra í landinu og annarra frjálsra félagasamtaka án þess að draga úr heildarframlögum til landsins að sinni.“

Þarna er vikið að fjárframlögum til samtaka samkynhneigðra, en það er líka tekið fram að önnur samtök, frjáls félagasamtök, geti átt þar undir, enda eru ýmis önnur samtök sem vinna að sömu markmiðum eða vinna með einum eða öðrum hætti að framgangi mannréttindamála fyrir samkynhneigða þó að þau séu hugsanlega starfandi á öðrum sviðum, sviði heilbrigðismála, félagsmála eða einhverjum öðrum slíkum sviðum. Okkur í nefndinni þótti eðlilegt að hafa orðalagið opið að því leyti að það væri ekki takmarkað við þau samtök sem beinlínis eru skilgreind sem samtök samkynhneigðra. Markmið þeirra breytinga sem við erum hér að velta upp er þó auðvitað það að unnt verði að styðja með virkum hætti við réttindabaráttu samkynhneigðra í Úganda.

Undir nefndarálit þetta rita auk þess sem hér stendur hv. þingmenn Ásmundur Einar Daðason, Svandís Svavarsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Vilhjálmur Bjarnason og Össur Skarphéðinsson. Þingmennirnir Frosti Sigurjónsson, Guðlaugur Þór Þórðarson og Óttarr Proppé voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.