143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

virðisaukaskattur.

166. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem felur í sér sérreglur um svokallaðar varmadælur. Frumvarpið var áður lagt fram á 139. og 141. löggjafarþingi. Þá var því vísað til nefndar sem óskaði umsagnar. Það var því ákveðið í þetta sinn að láta fyrirliggjandi umsagnir duga um málið, enda höfðu flutningsmenn undir forustu hv. þm. Kristjáns L. Möllers gert á frumvarpinu breytingar til að mæta athugasemdum sem fram höfðu komið á fyrri stigum.

Í áliti nefndarinnar á 141. löggjafarþingi þegar hún afgreiddi það til 2. umr. sagði meðal annars að varmadælur stæðu jafnfætis ódýrustu hitaveitum í landinu, það væri hagur allra að örva útbreiðslu og notkun þeirra á köldum svæðum, að afkastageta raforkukerfisins skertist ekki með uppsetningu varmadælu og að þá mætti nota í aðra uppbyggingu þær kílóvattstundir sem sparast.

Að mati okkar í meiri hluta nefndarinnar nú verða áhrif undanþáguheimildar frumvarpsins jákvæð. Það var lýst efasemdum í nefndinni um að kaup á varmadælum frá útlöndum væru skynsamleg í ljósi innlendrar raforkuframleiðslu en á hinn kantinn er á það að líta að sú hágæðaraforka sem unnin er hér getur nýst í svo marga aðra hluti og varmadælur henta til að auka orkunýtni og draga úr raforkunotkun. Það var því tillaga okkar að frumvarpið gengi hér fram og yrði samþykkt. Við kusum eins og ég segi að byggja á umfjöllun um frumvarpið fyrir nefndinni á fyrri þingum og teljum það fullnægjandi.

Ég vil sérstaklega þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Kristjáni L. Möller, sem átti frumkvæði að flutningi þessa máls. Hann tók við því af virðulegum forseta þingsins, Einari K. Guðfinnssyni, sem hafði flutt það á fyrri þingum. Ég held að þetta sé gott dæmi um það hvernig þingmannafrumvörp batna með árunum þegar þau komast til umsagnar sem flutningsmenn bregðast við og bæta úr mögulegum ágöllum. Því var einfalt fyrir okkur að vinna málið frekar hratt í nefndinni.

Ég held að þetta sé gríðarmikið hagsmunamál á hinum köldu svæðum. Ég fór um sunnanverða Vestfirði og norðanvert Snæfellsnes og heimsótti þar svo að segja hvert einasta þéttbýlissvæði í haust. Á þessum svæðum finnur maður sárast hve óskaplegur kostnaður liggur í húshitun og hvað það er mikilvægt að þróa allar mögulegar leiðir til að létta hinum íþyngjandi kyndingarkostnaði af heimilum. Ég er sérstaklega ánægður með að hafa fengið tækifæri á þessum þingvetri til að koma að því að tryggja framgang þessa þjóðþrifamáls í því skyni.