143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímuefnaneyslu.

335. mál
[17:55]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta velferðarnefndar um tillögu til þingsályktunar sem fékk umfjöllun í nefndinni og felur í sér að ríkisstjórninni verði falið að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum þar sem horfið verði frá refsistefnu og byggt á lausnamiðuðum og mannúðlegum úrræðum, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. Til að innleiða þessa nýju stefnu er lagt til að heilbrigðisráðherra skipi starfshóp sem tilnefndur verði af fagaðilum og að verkefni starfshópsins verði að meginstefnu þríþætt: að gera úttekt á gildandi lagaumhverfi svo afmarka megi viðfangsefnið nákvæmlega og undirbúa breytingar á löggjöf, að líta til reynslu annarra landa þar sem horfið hefur verið frá refsistefnu í fíkniefnamálum og að skapa heildstæða stefnu með höfuðáherslu á mannúðlega nálgun, vernd mannréttinda og skaðaminnkun.

Nefndin fjallaði um tillögu þessa og fékk fulltrúa á sinn fund frá Barnaverndarstofu, Mannréttindaskrifstofu Íslands, embætti landlæknis, geðsviði Landspítalans, Rauða krossinum, Snarrótinni, Drug Policy Alliance, Nýjustu lausninni og Rótinni. Einnig bárust nefndinni umsagnir frá einstaklingum, stofnunum og félögum.

Gestir og umsagnaraðilar nefndarinnar voru almennt jákvæðir í garð tillögunnar enda felur hún í sér mannúðlega nálgun í fíkniefnamálum með áherslu á meðferðarúrræði og skaðaminnkun. Lagt er til að neysla einstaklinga með fíknivanda verði leyst á vegum heilbrigðiskerfisins en ekki refsivörslukerfisins. Samkvæmt tillögunni á að hverfa frá refsistefnu fyrir neyslu ólöglegra fíkniefna sem muni leiða til þess að einstaklingar með fíknivanda treysti samfélaginu betur og leiti sér frekar aðstoðar en ef hótun um refsingu vofir yfir þeim. Mikilvægt er að árétta að það að leggja til að horfið verði frá refsistefnu varðandi vörslu neysluskammta ólöglegra fíkniefna felur ekki í sér lögleiðingu þeirra. Efnin verða hér eftir sem hingað til ólögleg og lögreglan mun áfram vinna að því að uppræta framleiðslu, sölu og innflutning ólöglegra fíkniefna.

Grundvallaratriði þessarar leiðar er hins vegar að einstaklingum verður ekki refsað vegna þeirra eigin neyslu enda hefur það sýnt sig að slíkar refsingar virðast ekki hafa skilað tilætluðum árangri og hafa takmarkaðan fælingarmátt, ef nokkurn. Í stað refsinga verður einstaklingum beint í viðeigandi meðferðarúrræði þar sem mál þeirra verða skoðuð á einstaklingsgrundvelli og metið hvaða úrræði henta hverjum og einum. Í þessu skyni þarf einnig að gera úttekt á þeim meðferðarúrræðum sem til eru hér á landi sem og þeim úrræðum til skaðaminnkunar sem þegar eru í boði. Hér á landi hefur mikil áhersla verið á meðferðarúrræði sem hafa þann tilgang einan að vinna á fíknivandamálum með þeim hætti að fólk hætti í neyslu. Almennt hefur einstaklingum með fíknivanda ekki staðið til boða mikil þjónusta meðan á neyslu stendur. Þannig hefur fíknivandi þeirra skapað skaðlegri vandamál en hann annars óhjákvæmilega gerir. Ekki eru allir einstaklingar með fíknivanda tilbúnir að fara í meðferð eða hætta neyslu en sé þeim veitt aðstoð til að lifa mannsæmandi lífi er líklegra en ekki að þeir muni leita sér viðeigandi meðferðar. Úrræði til skaðaminnkunar eru því lykilatriði í innleiðingu nýrrar mannúðlegrar stefnu í vímuefnamálum.

Fyrir nefndinni kom fram hjá gestum að reynsla fagfólks og rannsóknir sýna að flestir þeirra sem glíma við alvarlegan fíknivanda glíma einnig við önnur alvarleg veikindi og oft og tíðum geðræn veikindi, eiga sögu sem þolendur líkamlegs eða kynferðislegs ofbeldis eða annarra erfiðleika. Hér á landi hefur ávana- og fíkniefnavandi fólks verið í of miklum mæli leystur með vímuefnameðferðum en ekki heildrænum meðferðum þar sem ráðist er að rót vandans sem oft og tíðum eru geðræn veikindi. Mikilvægt er að horfa heildstætt á málefni hvers einstaklings og komast að rót þess vanda sem viðkomandi glímir við.

Mikil þróun hefur orðið í alþjóðlegri umræðu um vímuefnamál síðustu árin. Nokkur ríki hafa komist að þeirri niðurstöðu að stríðið gegn eiturlyfjum hafi skapað stærri vandamál en því var ætlað að leysa og lögleitt fíkniefni eða eru við það að lögleiða fíkniefni. Portúgal hefur valið allt aðra leið, ekki lögleitt efnin, heldur endurskoðað refsistefnu í fíkniefnamálum og tekið upp mannúðlegri nálgun.

Þess skal getið hér að lögleiðing og endurskoðun refsistefnu er langt frá því að vera það sama. Almenn áhrif þessa hafa verið jákvæð og bætt líf vímuefnafíkla til muna, til dæmis hefur HIV-smitum fækkað og dregið hefur úr neyslu 15–19 ára á fíkniefnum.

Mikilvægt er að hér á landi verði reynsla annarra landa metin með faglegum hætti og aðstæður hér bornar saman við aðstæður í öðrum ríkjum áður en tekin verður ákvörðun um stefnubreytingu í vímuefnavörnum. Tilgangur og markmið stefnunnar verður hér eftir sem hingað til að draga úr neyslu ólöglegra vímuefna og minnka skaðleg áhrif þeirrar neyslu á notendur og samfélagið. Á undanförnum áratugum hefur það sýnt sig að refsistefnan hefur ekki náð þessum markmiðum nægilega vel. Hins vegar er nauðsynlegt að stigið verði varlega til jarðar í þessum efnum og hvert skref ígrundað vel.

Meiri hlutinn telur að sú úttekt sem þingsályktunartillagan mælir fyrir um sé nauðsynleg áður en hægt sé að taka ákvörðun um frekari breytingar. Meiri hlutinn telur því ekki tímabært að fela ríkisstjórninni að innleiða nýja stefnu í vímuefnamálum, heldur þurfi fyrsta skrefið að vera endurskoðun núverandi stefnu og að byggt verði á lausnamiðuðum og mannúðlegum aðferðum. Meiri hlutinn leggur til breytingar þess efnis á 1. mgr. tillögugreinarinnar og þá hljóðar hún svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða stefnu í vímuefnamálum á grundvelli lausnamiðaðra og mannúðlegra úrræða, á forsendum heilbrigðiskerfisins og félagslega kerfisins, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.“

Þá er einnig mikilvægt að sá starfshópur sem ráðherra skipar á grundvelli tillögunnar leiti við vinnu sína einnig til einstaklinga með fíknivanda, aðstandenda og þeirra sem hafa þekkingu og reynslu af viðfangsefninu. Til að auka fjölbreytni sjónarmiða við vinnuna leggur meiri hlutinn til þá breytingu á 2. málslið 2. mgr. tillögugreinarinnar að nefndarmönnum sem heilbrigðisráðherra skipar án tilnefningar verði fjölgað úr einum í þrjá og verði einn þeirra formaður starfshópsins.

Einnig leggur meiri hlutinn til breytingu á 5. mgr. tillögugreinarinnar sem orðist svo:

„Heilbrigðisráðherra upplýsi Alþingi um framgang verkefnisins á haustþingi 2014 og skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps, sbr. c-lið 3. mgr., fyrir 1. maí 2015.“

Þá leggur meiri hlutinn einnig til breytingu á fyrirsögninni til samræmis við aðrar breytingar sem hafa verið gerðar og mun hún þá hljóða þannig:

„Tillaga til þingsályktunar um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðarverkunum vímuefnaneyslu, til aðstoðar og verndar neytendum efnanna og félagslegum réttindum þeirra, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild.“

Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að tillagan verði samþykkt með fyrrnefndum breytingum. Þess skal getið að Helgi Hrafn Gunnarsson, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykkur áliti þessu.

Undir álitið skrifa formaður nefndarinnar, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, sá sem hér stendur, framsögumaður málsins, Vilhjálmur Árnason, Björt Ólafsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir, með fyrirvara, og Páll Jóhann Pálsson.