143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[18:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka afgreiðslu velferðarnefndar á þessari tillögu. Í henni er að finna pólitíska stefnumörkun af hálfu okkar í Samfylkingunni. Ég hef hins vegar tekið eftir því að í umræðunni í vetur hafa þær hugmyndir sem þar eru reifaðar fengið sífellt meiri hljómgrunn í umræðu í samfélaginu. Hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra lýsti því yfir strax við 1. umr. málsins að hún væri efnislega sammála inntaki flestra þeirra tillagna sem finna mætti í þingsályktunartillögunni, og þeirra áherslna sem þar eru raktar sér mjög stað í niðurstöðu verkefnisstjórnar sem skilaði af sér fyrir fáeinum vikum. Fram undan er nú að hrinda í framkvæmd nýjum lausnum á grundvelli tillagna verkefnisstjórnarinnar og við bindum vonir við að sú vinna sem við lögðum í þessa þingsályktunartillögu nýtist frekar inn í þá vinnu.

Ég fagna því sérstaklega að tillagan hljóti afgreiðslu af hálfu þingsins. Í því felst að sjálfsögðu að tekið er undir efnislegan þrótt þeirra tillagna sem liggja þarna að baki.