143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:10]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um byggingu nýs Landspítala og er þetta nefndarálit frá velferðarnefnd. Flutningsmenn málsins eru hv. þm. Kristján L. Möller og þingmenn úr ýmsum flokkum.

Mikil vinna hefur átt sér stað við hönnun á endurnýjun og endurbótum á húsakosti Landspítalans. Sagan er ágætlega rakin í greinargerð þingsályktunartillögunnar. Frumhönnunarvinna er langt komin og deiliskipulag hefur verið samþykkt fyrir lóð spítalans við Hringbraut. Starfsemi Landspítalans er nú dreifð um alla borg í yfir 100 byggingum en í því felst mikið óhagræði fyrir rekstur spítalans sem og fyrir öryggi sjúklinga. Veigamiklar byggingar spítalans eru illa farnar og kemur það niður á aðstöðu starfsfólks og öryggi sjúklinga. Það er vandkvæðum bundið að kaupa sum af þeim tækjum sem þörf er á því að núverandi byggingar bera ekki tækin. Það er aðkallandi að ráðist sé í endurnýjun og uppbyggingu húsnæðis Landspítala til að stuðla að áframhaldandi heilbrigðiskerfi sem stenst alþjóðlegan gæðasamanburð. Mikilvægt er að stjórnvöld haldi áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið og stefni að uppbyggingu sjúkrahússins á þeim grunni. Vaxandi stuðningur er við verkefnið eins og til dæmis stofnun nýrra samtaka, Spítalinn okkar, ber vott um, enda má líkja Landspítalanum við hjarta í heilbrigðiskerfinu. Ef við stöndum ekki vörð um öflugan og góðan Landspítala sem hefur á að skipa hæfu starfsfólki og nýjustu tækjum og tryggir öryggi sjúklinga sinna mun það grafa undan heilbrigðiskerfinu til langs tíma. Við megum ekki mikinn tíma missa, það þarf að hefja framkvæmdir sem fyrst.

Nefndin telur mikilvægt að þverpólitísk samstaða ríki um Landspítalann og telur samþykkt þessarar tillögu til þess fallna að skýra stefnu stjórnvalda og að hraða uppbyggingu sjúkrahússins. Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með einni breytingu en að fyrirsögnin breytist jafnframt:

1. Tillögugreinin orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð.

2. Fyrirsögn tillögunnar verði: Tillaga til þingsályktunar um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala.

Tveir hv. þingmenn voru fjarverandi við afgreiðslu málsins, en undir álitið rita hv. þingmenn Sigríður Ingibjörg Ingadóttir framsögumaður, Þórunn Egilsdóttir, Björt Ólafsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Guðbjartur Hannesson, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Unnur Brá Konráðsdóttir.