143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:15]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að velferðarnefnd hafi náð saman um að ganga þó þetta skref þótt ég sé í hópi þeirra sem hefðu viljað sjá menn halda áfram með verk fyrri ríkisstjórnar í málefnum Landspítalans, þ.e. að leggja á það áherslu að afla fjár til að hann geti risið á næstunni.

Þegar við erum að tala um nýjan Landspítala eru menn ekki að tala um að leggja þann sem fyrir er niður heldur að fara í myndarlegar viðbyggingar við hann vegna þess að það er orðið heilbrigðispólitískt mjög aðkallandi og því komast allir að þegar þeir fara að skoða málið ofan í kjölinn.

Við erum með besta heilbrigðiskerfi í heimi og það er enn þá þannig en þetta húsnæði sinnir ekki lengur, hvorki nú né í fyrirsjáanlegri framtíð, þörfum spítala sem er hluti af besta heilbrigðiskerfi í heimi. Þannig er það einfaldlega og við verðum að horfast í augu við að þarna þarf að í heilmiklar framkvæmdir til að við getum haldið áfram að vera í fremstu röð. Ég held að við getum öll verið sammála um þetta og ég held að hæstv. heilbrigðisráðherra sem hér gengur sé sammála mér í því.

Það vill þannig til að þverpólitískt eru menn sammála um að þetta þurfi að gera og þess vegna vil ég núna skora á okkur öll að taka höndum saman um að tryggja að þessi spítali rísi á næstu árum, að hafist verði handa við að byggja þarna upp vegna þess að ella verðum við komin í mjög mikinn vanda innan áratugar.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en vil að lokum segja þetta: Þessari tillögu er ekki ætlað að fara til ríkisstjórnar til að fara í einhvern hægagang. Ég sé fyrir mér að menn taki sprettinn og skili mjög fljótlega einhverri áætlun um þessa uppbyggingu til þingsins þannig að við getum sameinast um að fara í framkvæmdirnar.

Ég hef lokið máli mínu en enn og aftur vil ég ítreka að við getum þetta. Verkefnið er ekki það stórt að við ráðum ekki við það. Við getum þetta. Við getum byggt þennan spítala. Það þarf að taka ákvörðun um að gera það og ákveða síðan í hvaða skrefum við ætlum að gera það.

Menn voru í dag til dæmis að fjalla um og samþykkja mjög háar upphæðir sem munu koma til greiðslu úr ríkissjóði á næstu árum og það er þannig að við getum gert þetta ef við erum áræðin. Með viljann að vopni er allt hægt. Þetta er stóra verkefnið í heilbrigðismálum á komandi árum. Það er að tryggja að þessi uppbygging á spítalanum eigi sér stað.