143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:18]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég vil eins og aðrir hér á undan mér fagna því að þessi tillaga er samþykkt þó að vissulega hefði ég viljað eins og þau og eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi sérstaklega að hægt hefði verið að taka ákveðnari skref og tryggja fjármagn til þessarar nauðsynlegu uppbyggingar á þessu þingi. En það verður þá að halda áfram á næsta þingi. Það er bráðnauðsynlegt.

Þetta snýst ekki lengur um að húsnæði Landspítalans sé lélegt og það sé vont að reka spítala í þessu húsnæði. Málið snýst um að það tekur a.m.k. fjögur, fimm ár að koma húsnæði af þessari tegund á laggirnar og heilbrigðiskerfið, spítalinn, ræður ekki við þá stóru árganga sem eru nú að komast á efri ár og koma þess vegna í meira mæli inn á sjúkrahúsið en verið hefur. Við verðum að gera þetta. Við verðum að gera þetta til að tryggja öryggi sjúklinganna vegna þess að heilbrigðisstarfsfólkið getur ekki tryggt það öryggi sjúklinga sem þarf að vera, í núverandi húsnæði. Þetta verður ekki lengur umflúið. Það verður bara að gera svo vel, og eins og forstjóri Landspítalans sjálfur segir þegar hann er spurður: Ertu bjartsýnn? Þá segir hann: Ef ég er í miðri Krossá er ekki spurning um að vera bjartsýnn hvort ég komist yfir, ég verð að komast yfir. Það þurfum við öll hér að skilja. Við verðum að tryggja þetta.