143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:26]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er afar ósáttur við að gefið sé í skyn að ég hafi sagt eitthvað sem ég sagði ekki, að gefið sé í skyn að ég sé að væna fólk um eitt eða annað. Það var ekki ætlun mín, ég sagði það ekki. Ég veit vel að hv. þingmaður er orðinn snillingur í því, að mér finnst, að túlka það sem sagt er úr þessum ræðustól neikvætt en það var alls ekki þannig. Ég vék í engu að þeim sem eru annarrar skoðunar en ég í þessu máli. Ég kæri mig ekki um svona lagað.

Á síðasta kjörtímabili var ein leið í fyrirrúmi, ein leið. Ég gagnrýndi það og sagði að til væru aðrar leiðir, að það yrði að minnsta kosti að skoða aðrar leiðir. Fjármálaskrifstofa fjármálaráðuneytisins — ég man ekki hvort hv. þingmaður var fjármálaráðherra á þeim tíma — gaf umsögn með tillögum um byggingu nýs háskólasjúkrahúss. Það var í þá umsögn sem ég var að vitna hér rétt áðan. Þar var bent á að ef menn ætluðu að ráðast í þessa framkvæmd, einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, yrðu menn að gera sér grein fyrir því að það mundi bitna á tekjum ríkissjóðs, það yrði að selja eignir til að mæta kostnaðinum.

Ef einhver hér inni heldur því fram að það muni ekki bitna á ríkissjóði og þá þeim fjármunum sem við höfum til að deila út í stofnanir og fyrirtæki, held ég að sá þingmaður ætti að hugsa sinn gang. En ég frábið mér það að gefið sé í skyn að ég segi eða meini eitthvað annað en það sem ég segi hér berum orðum.