143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[18:28]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var ekki að gefa neitt í skyn, það er þá bara mín neikvæða túlkun, en ég tók orðum hv. þingmanns á þennan hátt, þegar hann sagði í niðurlagsorðum sínum: Við skulum nú fara að setja fókusinn á sjúklingana. Eins og við hefðum ekki verið að því, við sem viljum framgang þessa máls. Þetta er til í þingtíðindum og menn geta túlkað það að vild.

Það sem ég vildi segja er að við þurfum að ná saman um þetta og þá þurfum við að tala hvert við annað af virðingu. Ég var fjármálaráðherra þegar þetta álit var gefið út og hv. þingmaður velur að nefna brúttótöluna, hann velur að fara ekki í gegnum það sem stóð líka í álitinu, sem var ákveðin hagræðing sem af þessu hlýst, árleg hagræðing. Þarna koma líka aðrir þættir inn í vegna þess að ljóst er að við munum þurfa að fara í mjög dýra endurnýjun á húsnæði á næstu árum ef ekki verður farið út í þessar framkvæmdir. Menn þurfa líka að horfa á nettóútkomuna.

Hv. þingmaður talar alltaf um að hlutirnir bitni á ríkissjóði. Verði ekki farið í endurnýjun á húsakosti Landspítalans mun það bitna á heilbrigðiskerfinu. Hv. þingmaður er í stjórnmálaflokki sem tók ákvörðun um að leggja út í kostnað upp á tugi milljarða fyrir ríkið út af skuldaniðurfærslum. Það hefur verið tekið saman að það sé vel á annað hundrað milljarða, sá kostnaður. Það er pólitísk ákvörðun sem tekin var hér. Ég er bara að biðja um að við setjumst niður og reynum að ná saman um að taka ákvörðun um að hefja þessa vegferð með einum eða öðrum hætti þannig að við höldum áfram að vera í fremstu röð þegar kemur að heilbrigðismálum. Þarna er um að ræða fjármuni sem íslenskt samfélag getur vel, með góðu skipulagi og góðri áætlanagerð, lagt af stað með í byggingu á þessum spítala, þ.e. á grunni þeirra fjármuna.