143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

séreignarsparnaður og ráðstöfun hans til greiðslu húsnæðislána og húsnæðissparnaðar.

484. mál
[18:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Við þingmenn Bjartrar framtíðar sitjum hjá um þetta mál. Okkur finnst það mun skárra en hitt skuldamálið sem við höfum rætt í þingsal. Það eru hins vegar stórir gallar á því, einkum og sér í lagi tveir sem ég vil nefna hér, annars vegar að skattfrelsið sem við sem lifum og störfum nú ætlum að njóta er fjármagnað af tekjum komandi kynslóða. Það finnst mér mjög gagnrýnisvert og alls ekki hugsun til eftirbreytni. Hins vegar finnst mér algjörlega hafa verið staðfest í stuttri yfirferð nefndarinnar milli 2. og 3. umr. að þetta hefur slæm áhrif í hagstjórnarlegu tilliti. Jafnvel þarf að grípa til mótvægisaðgerða.

Hér kemur skattfrjálst fé inn í húsnæðissparnað sem hægt er að veðsetja með auknu veðrými. Það verður til þess að peningar fara út í einkaneyslu sem getur aukið viðskiptahalla. Þetta hefur gerst áður, fyrir skömmu, í íslensku efnahagslífi (Forseti hringir.) í mjög stórum stíl og það er full ástæða til að vara við þessari mögulegu atburðarás.