143. löggjafarþing — 118. fundur,  16. maí 2014.

virðisaukaskattur.

166. mál
[19:19]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæða frumvarp um að fella niður virðisaukaskatt á kaupum á varmadælum sem ég er 1. flutningsmaður að og fékk í arf frá hæstv. forseta, Einari K. Guðfinnssyni, á þessu þingi. Það er mjög ánægjulegt að þetta frumvarp skuli nú vera komið þetta langt og að við séum að greiða atkvæði um það. Það eru til þess dæmi á köldum svæðum, til þess dæmi austan frá Norðfirði að menn hafa lækkað húshitunarkostnaðinn um allt að 60% með því að setja upp varmadælur. Hér er ríkið að stíga skref til að lækka verð á varmadælum. Þær geta lækkað um 20–25% í framhaldi af því. Það sparar þá kílóvattstundir, rafmagn sem verður hægt að selja öðrum og það sparar líka niðurgreiðslu ríkissjóðs þannig að meira verður til af niðurgreiðslum fyrir þá sem ekki hafa með þennan valkost. Ég er mjög ánægður með störf efnahags- og viðskiptanefndar og þakka formanni nefndarinnar og framsögumanni fyrir það og þakka fyrir að hafa fengið málið í arf frá hæstv. forseta. (Gripið fram í: Amen.)