143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:40]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Í síðustu kosningum keypti Framsóknarflokkurinn sér 19 þingmenn með kosningaloforðum. Nú hefur fylgið dregist saman svipað og væntingarnar um loforðið sem stóð til að efna. Því miður geta kjörnir fulltrúar sem kjörnir eru á fjögurra ára fresti náttúrlega dregið til baka kosningaloforðin en kjósendur geta ekki dregið til baka atkvæði sín. Þetta er klárlega galli á fulltrúalýðræðisfyrirkomulagi sem var komið á fyrir tvö, þrjú, fjögur hundruð árum eftir stöðum. Við þurfum meiri aðkomu almennings á miklu fleiri stigum máls, við undirbúning lagafrumvarpa og með inngripum þegar mönnum finnst að þeir hafi verið sviknir eða þeim finnst traðkað á þjóðarviljanum, og þjóðin þarf að fá málskotsréttinn í sínar hendur. Lýðræðið þarf að dýpka á Íslandi.