143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:43]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ef ég væri leigjandi, byggi í húsnæðissamvinnufélagi eða slíku og hlýddi á þessar yfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra yrði mér sennilega hugsað til gamla málsháttarins: Betri er einn fugl í hendi en tveir í skógi. Ég er hræddur um að þetta séu að einhverju leyti fuglar í skógi sem hæstv. forsætisráðherra veifar hér undir lokin að þetta útiloki ekki að síðar verði gert eitthvað meira fyrir einhverja aðra. En ef hæstv. forsætisráðherra er að boða að meira sé í vændum, í vændum séu tugmilljarða ráðstafanir í viðbót handa leigjendum í húsnæðissamvinnufélögum, nokkrir milljarðar í að laga lánsveðsvandann, væri gott að fá upplýsingar um það, það skiptir auðvitað máli. Hér á að ráðstafa gríðarlegum opinberum fjármunum til þeirra sem njóta, en skilja mjög fjölmenna hópa eftir, þar á meðal þá sem sennilega eru verst settir og sennilega hafa tekið á sig þyngsta höggið vegna hrunsins á Íslandi og verðbólguskotsins, t.d. þeir sem búa í félagslegum leiguíbúðum (Forseti hringir.) með fullverðtryggða leigu.