143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:45]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta mál snýst um það að reka smiðshöggið á ákveðið verkefni sem var skilið eftir óklárað. Það voru reyndar höfð uppi mjög stór orð á sínum tíma, skjaldborg fyrir heimilin og norræn velferðarstjórn. Það er því mjög undarlegt að hlýða hér í þingsal á yfirlýsingar, frá sama fólki og hafði uppi þau stóru orð, um alla hópana sem haldið er fram að þessi ríkisstjórn sé að skilja eftir. Viðkomandi höfðu þó fjögur ár til þess að bregðast við lánsveðsvandanum og koma með aðgerðir gagnvart þeim sem hafa tekið námslán og þeim sem eru á leigumarkaði o.s.frv. Þeir sem eru á leigumarkaði hafa ekki orðið fyrir forsendubresti með sama hætti og þeir sem tókust á hendur stórar skuldbindingar og gengust í persónulegar ábyrgðir fyrir lánum sem síðan fóru langt upp fyrir raunvirði fasteignanna. (Gripið fram í.) Það er um þann vanda sem þessi ríkisstjórn hefur alltaf frá fyrsta degi verið að tala og hefur aldrei staðið neitt annað til en að aðgerðin beindist að þeim hópi. Hér er verið að reka smiðshöggið á aðgerðir sem eru fjármagnaðar, sem setja ríkissjóð ekki á hliðina og munu á næstu árum (Forseti hringir.) reka smiðshöggið á verkefni sem var skilið eftir óklárað af fyrri ríkisstjórn.