143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:50]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan að verið væri að reka smiðshöggið á vinnu við skuldamál. Ja, betur að satt væri. Þessi afgreiðsla hér veldur því að fjármagn er tekið til fólks sem ekki er í neinum skuldavanda, en stórir hópar í skuldavanda eru skildir eftir. Skuldavandinn mun verða viðfangsefni okkar næstu missiri og ár vegna þess hversu óskynsamlega er hér að verki staðið. Tekið er á sambærilegum málum með fullkomlega ósambærilegum hætti. Við erum að upplifa það aftur að tíu árum eftir að Framsóknarflokkurinn borgaði ríkisstjórnarsetu allt of dýru verði með stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokknum 2003 þá endurtekur Sjálfstæðisflokkurinn leikinn og greiðir of dýru verði setuna í Stjórnarráðinu með þeirri einkunn að varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að sómakærir alþingismenn geti ekki leyft sér annað en greiða atkvæði gegn þessu máli.