143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:54]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég segi já. Ég tel að með því máli sem við erum að samþykkja í dag hafi ríkisstjórnin sýnt að hún hefur kjark til þess að taka ákvarðanir, hún hefur kjark til þess að taka á fyrirliggjandi verkefnum. Það er annað en við sáum á síðasta kjörtímabili (Gripið fram í: Rétt.) þegar við stóðum hér í fjögur ár og ræddum um skuldavanda heimilanna. Vissulega komu til mörg úrræði af hálfu fyrri ríkisstjórnar. Við sjálfstæðismenn höfðum á síðasta kjörtímabili þó kjark í okkur til þess að styðja flestar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kom með í þágu skuldugra heimila þótt það dygði ekki til. Skjaldborgin kom aldrei. Við sitjum uppi með óleyst verkefni frá síðustu ríkisstjórn. Sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við sýnir það með verkum sínum að hún hefur kjark til þess að stíga fram, taka á vandamálunum og leysa skuldavanda heimilanna. Til hamingju með það.