143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

485. mál
[20:57]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að forðast að raska ró hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar, sumra hverja, meira en orðið er því þetta á að vera hátíðleg stund, gleðileg stund sem hún vissulega er. Hér er loks verið að samþykkja mál sem beðið hefur verið eftir í fimm ár. Það er verið að koma til móts við millitekjufólk á Íslandi sem hefur tekið á sig miklar byrðar á undanförnum árum og setið eftir þegar ráðist hefur verið í aðgerðir fyrir aðra. Í því felst ekki yfirlýsing um að það megi sleppa því að huga að stöðu annarra hópa hér eftir eða þessa stóra hóps sem hér er loksins verið að koma til móts við. En þetta er upphafið að miklum framförum, efnahagslegum framförum og viðspyrnu fyrir íslensk heimili, undirstöðu íslensks samfélags og íslensks efnahagslífs. Því er þetta gleðiefni fyrir alla hópa samfélagsins og alla (Forseti hringir.) þingmenn. Ég segi því já.