143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

veiðigjöld.

568. mál
[21:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu máli horfir ýmislegt til betri vegar. Ég er sérstaklega ánægður með að við höfum fengið það fram að sá þáttur málsins sem við studdum hér við 2. umr. hafi fengist í gegn, að hemja möguleika útgerða á að draga frá veiðigjaldi fjárfestingar í veiðiheimildum í öðrum löndum.

Vandinn við að styðja þetta mál er mikill við þær aðstæður að í því felst enn frekari lækkun veiðigjalda. Það er ekki eðlilegt að setja það í forgang eins og ríkisstjórnin hefur gert að draga stöðugt úr gjaldtöku fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum. Ég hefði frekar viljað fara í þá vegferð með ríkisstjórninni að finna leiðir til að sætta þau sjónarmið að greinin eigi að greiða sanngjarnt gjald til þjóðarinnar og að það eigi að ráðast af getu greinarinnar á hverjum tíma.

Besta leiðin til þess er að láta verðmyndun á markaði með veiðiheimildir ráða því endurgjaldi sem greinin greiðir til þjóðarinnar. Það er sanngjarnt og réttlátt, bæði fyrir greinina og þjóðina. Það hlýtur að vera leiðin fram á við.

Það er ekki hægt að styðja (Forseti hringir.) þetta mál.