143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

lokafjárlög 2012.

377. mál
[21:10]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að fara aðeins yfir framhaldsnefndarálit minni hluta fjárlaganefndar vegna lokafjárlaga 2012. Það var aðeins farið yfir málið hér fyrr í dag og í áliti okkar núna kemur fram að við teldum ekki ásættanlegt að Alþingi samþykkti lokafjárlög fyrr en fjárlaganefnd hefði farið yfir frumvarpið með tilhlýðilegum hætti. Minni hlutinn hafði óskað eftir fundi með fulltrúum fjármála- og efnahagsráðuneytisins til að fara yfir ýmsa fjárlagaliði.

Um fund var beðið þann 5. maí þegar málið var óvænt tekið út en þeirri ósk þá hafnað og af þeim sökum gátum við ekki sætt okkur við að málið yrði afgreitt.

Þess vegna var óskað eftir fundi í dag milli 2. og 3. umr. Það hefði verið heppilegra að sá fundur hefði verið haldinn. Næg tækifæri hafa gefist til þess síðustu tvær vikurnar og hefði það verið betra því að þá hefði gefist miklu betra tækifæri til að fara ofan í hina ýmsu fjárlagaliði. Ég tel það skipta miklu máli. Í fjárlaganefnd er töluvert af nýju fólki sem vill leggja sig fram við að læra vel á fjárlögin, hvernig þau eru uppbyggð, af því að með því að samþykkja lokafjárlög erum við að samþykkja ríkisreikninginn.

Í fyrra álitinu kemur fram misræmi, þ.e. þegar gengið var frá ríkisreikningi 2012 myndaðist misræmi í höfuðstól stofnana sem fjárlagahalli var afskrifaður hjá. Við vildum vita hvort um væri að ræða einhverja verklagsreglu sem aðrar stofnanir gætu átt von á að þær gætu farið eftir. Ég óskaði eftir því við hæstv. fjármálaráðherra í umræðu um þetta mál þegar það kom hér fyrst á dagskrá og óskaði eftir að hann kynnti þessa verklagsreglu sem tryggði jafnræði milli stofnana. Hann taldi það ekki mikið mál og ég skildi hann svo að það yrði gert, en það hefur auðvitað ekki verið gert. Það er miður.

Ég tek undir það sem kemur fram í áliti meiri hluta fjárlaganefndar þar sem ítrekað er að niðurfellingar af þessu tagi séu mjög vandmeðfarnar og sagt að ávallt sé hætta á að þær skapi fordæmi og geti dregið úr aga í ríkisrekstri. Ég tek undir það.

Meiri hlutinn hvetur til þess, sem við höfum óskað eftir, að þessar verklagsreglur eða formlegar reglur verði gerðar um niðurfellingar rekstrarhalla og þær kynntar áður en kemur að úrvinnslu frumvarps til lokafjárlaga 2013. Ég vona að það verði gert.

Við fengum fund í dag og gátum farið mjög stutt yfir málið. Það var rætt að um hálftímafund yrði að ræða. Þar af leiðandi var okkur strax ljóst að ekki yrði hægt að fara neitt sérstaklega djúpt ofan í málið og við í minni hlutanum vorum minnt á það á fundinum og óskað eftir því að við spyrðum ekki ítrekað um það sem við vildum ræða.

Ég sé að hv. varaformaður fjárlaganefndar er mér ekki alveg sammála.

Þegar ég kom hér inn á síðasta kjörtímabili ræddi ég töluvert oft við þingmann sem sat í fjárlaganefnd, hv. fyrrverandi þingmann Ásbjörn Óttarsson. Hann hafði það orð á sér, held ég, að vera sérstaklega duglegur þingmaður, duglegur í fjárlaganefnd. Það verklag sem við erum að kalla eftir, þingmenn minni hluta fjárlaganefndar, er akkúrat í anda þess sem hafið var á síðasta kjörtímabili og hann var meðal annars í forsvari fyrir.

Ég tel að við þurfum að vanda betur til verka. Það hlýtur að vera í anda og samræmi við það sem hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa ítrekað sagt um ábyrgð í fjármálum. Þrátt fyrir að við séum hér að samþykkja fjárlög 2012 erum það við sem tökum ábyrgð á þeim reikningi. Það þýðir ekki að segja, eins og gert hefur verið, að þetta sé eitthvað liðið, þetta snýr líka að því að fara yfir það sem betur má fara. Það er nokkuð sem við getum gert og eigum að gera.

Við erum hins vegar að vinna ágætisvinnu vegna 2011 og 2012 er varðar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Þar er búið að boða til ítarlegrar vinnu og hefur verið ágætisvinna í því. Ég hefði viljað sjá hana hvað þetta varðar líka.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Við í minni hlutanum teljum að eins og þetta liggur hér fyrir getum við ekki samþykkt frumvarpið.