143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

opinber skjalasöfn.

246. mál
[21:27]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er um mjög mikilsvert mál að ræða. Skipulag skjalavörslu í landinu snertir flest svið þjóðlífsins. Hér er ekki einungis um að ræða hvernig við t.d. varðveitum menningararfinn heldur er hér einnig um að ræða m.a. réttaröryggi í landinu og varðveislu gagna um réttindi manna. Því skiptir miklu að hér sé málum vel skipað.

Ég vil þakka nefndarmönnum hv. allsherjar- og menntamálanefndar fyrir þeirra vinnu. Ég veit að hún hefur verið mikil, þetta er flókið mál, og mjög ánægjulegt að náðst skuli hafa góð samstaða um það. Ég á von á því að þessi löggjöf eigi eftir að standa um langa tíð.