143. löggjafarþing — 119. fundur,  16. maí 2014.

tekjuskattur.

608. mál
[21:48]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Í gær barst efnahags- og viðskiptanefnd beiðni frá fjármála- og efnahagsráðuneyti um að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt varðandi undanþágu vegna vaxtagreiðslna af skuldabréfum ríkissjóðs. Nefndin tók málið fyrir á fundi sínum í morgun og fékk fulltrúa frá ráðuneytinu og Seðlabankanum til að kynna það fyrir nefndinni.

Aðalatriði málsins eru þau að í 3. gr. laga um tekjuskatt kemur fram að allir aðilar sem hafa vaxtatekjur hér á landi skuli greiða tekjuskatt af þeim tekjum. Það gildir þó ekki um vexti sem greiddir eru af Seðlabanka Íslands í eigin nafni. Komið hefur í ljós að nauðsynlegt er að ákvæðið taki jafnt til þeirra vaxta sem Seðlabanki Íslands greiðir í eigin nafni, af sínum eigin skuldbindingum, sem og þegar hann hefur milligöngu um greiðslu vaxta fyrir hönd ríkissjóðs, en bankinn annast skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs, bæði innan lands og erlendis samkvæmt samningi við fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Erlend greiðslumiðlunarfyrirtæki hafa í einhverjum tilvikum hafnað skráningu á miðlun með skuldabréfaútgáfu ríkissjóðs og borið því við að það skapi flækjur að framangreint ákvæði taki ekki skýrt til útgáfu bankans fyrir hönd ríkissjóðs. Því er áðurnefnd breyting lögð til. Breytingin er talin auka til muna möguleika ríkissjóðs á að nýta tækifæri til útgáfu skuldabréfa á erlendum mörkuðum þegar hagstæðar aðstæður skapast og með því lækka vaxtakostnað ríkisins.

Breytingin felst í þessu:

„Á eftir orðunum „í eigin nafni“ í 2. málsl. 8. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna kemur: eða fyrir hönd ríkissjóðs.“

Þetta er eina breytingin.

Nefndin stendur að málinu og leggur til að það gangi til 2. umr.