143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

dagskrá fundarins.

[15:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég var að vona að maður fengi þá ótakmarkaðan tíma. En allt um það. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir undrun minni á þeirri dagskrá sem hæstv. forseti hefur dreift. Hér er kallað til þingfundar að sumarlagi og ekkert samráð hefur verið haft um dagskrá fundarins.

Óskað hefur verið eftir fundi formanna þingflokka, að minnsta kosti af hálfu tveggja þingflokksformanna. Óskað hefur verið eftir því að á dagskrá væru óundirbúnar fyrirspurnir til ráðherra þannig að þingið gæti sinnt eftirlitsskyldum sínum með framkvæmdarvaldinu. Við því hefur ekki verið orðið. Ekki hefur verið fundað í forsætisnefnd þingsins og fjallað um dagskrá þessa þingfundar.

Mér þykir miður að góður vilji okkar, til að greiða fyrir því að ríkisstjórnin geti komið brýnu máli á dagskrá og fengið það afgreitt, sé ekki virtur meira en svo að dagskráin sé sett einhliða af framkvæmdarvaldinu og þingið eða þingflokkar komi ekkert að því að ákveða dagskrána.

Ég legg áherslu á að langur tími er síðan þingið var að störfum og þau málefni sem verið hafa á vettvangi framkvæmdarvaldsins eru mörg þess efnis að full ástæða er til þess að (Forseti hringir.) þjóðkjörnir fulltrúar hafi tækifæri til að spyrja þingmenn um framgang þeirra mála og sinna þannig eftirlitsskyldu Alþingis. Ég harma það, virðulegi forseti.