143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:51]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hefur verið sagt ítrekað að lítill bragur sé á því að koma með neyðarlög á deilur eins og þær sem hér um ræðir og að frekar eigi að koma með þær hingað inn í sali þingsins. Það á samt ekki að þýða að ráðherra geti kallað saman þing eftir behag án þess að farið sé að þingskapalögum um það með hvaða hætti það er gert. Ég er hugsi eftir að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir nefndi hér áðan og vísaði í þingskapalög þar sem segir í 1. mgr. 86. gr., með leyfi forseta:

„Forseti skal hafa reglulega samráð við formenn þingflokka, eða fulltrúa þeirra, um skipulag þingstarfa og leggja fyrir þá til umfjöllunar starfsáætlun þingsins og áætlanir um þingstörf hverrar viku.“

Í 2. mgr. 10. gr. þingskapalaga er líka fjallað um það hvernig hafa skuli samráð við forsætisnefnd þar sem segir:

„Forsætisnefnd skipuleggur þinghaldið og gerir starfsáætlun fyrir hvert þing.“

Hér hefur hvorugt af þessu verið gert. (Forseti hringir.) Hér erum við með fordæmalausa stöðu uppi í þinginu þegar verið er að kalla saman þing út af þessu eina máli. Þetta verður að vera í lagi. Annars er ekkert að marka þingsköpin eða lagasetningu sem við höfum utan um starfsemi okkar. Ég vil fá svör við því hvaða rök liggi að baki því að hunsa þessar lagagreinar.