143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:55]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Við megum heldur ekki ganga þannig um lýðræðið að menn horfi til okkar sem gerum við þetta athugasemdir og telji að við séum bara með almenn leiðindi, vegna þess að þetta eru þingskapalög. Við göngumst öll inn á það að fylgja þingskapalögum. Þar er kveðið á um þetta, gert ráð fyrir þessu samráði, og það er enginn — af því að menn eru að tala um að þeir vilji hafa góðan brag á hlutunum — bragur á þessu heldur. Það hefði alveg eins verið hægt að setja neyðarlög. Það er enginn bragur á þessu.

Við eigum að fara að þingskapalögum í einu og öllu og ég óska eftir því við hæstv. forseta að hunsa ekki það sem við erum að biðja um hér heldur gefa okkur svar við því hvers vegna þetta var ekki gert áður en þessi þingfundur er búinn. Við þurfum að vita hvers vegna þingsköpum er ekki fylgt að þessu sinni. Við þurfum að hafa samskiptin hér í lagi og við þurfum að geta treyst því að forseti (Forseti hringir.) fylgi þeim í hvívetna og þá ekki síst í samráðinu við stjórnarandstöðuna.