143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[15:59]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þetta er býsna kyndugt. Er það virkilega þannig að ráðherrar ríkisstjórnarinnar, eða forsætisráðherra að minnsta kosti, treysti sér ekki til að svara fyrirspurnum alþingismanna um málefni þjóðarinnar og athafnir ríkisstjórnarinnar? Er það þannig að forsætisráðherra hafi hafnað beiðni frá þinginu um að hafa óundirbúnar fyrirspurnir á dagskrá? Fær forseti Alþingis ekki að leita eftir því að ráðherrar séu til svara fyrir alþingismenn á þingfundum, er honum neitað um það? Eða bar forseti Alþingis aldrei fram slíka beiðni?

Ég held, virðulegur forseti, að það sé mikilvægt að meðan þetta dagskrármál, sem við vildum gjarnan greiða fyrir að fái afgreiðslu hér í þinginu, vegna þess að það er mikilvægt mál sem varðar stjórnarathafnir, er til umfjöllunar í nefnd noti forseti tækifærið, þó að seint sé, og kalli saman fund formanna þingflokka og ræði þinghaldið og dagskrá fundarins.

Ég skil ekki við hvað ráðherrarnir eru hræddir. Þora ráðherrarnir ekki að svara spurningum sem til þeirra er beint hér í ræðustólnum? Treystir ríkisstjórnin sér ekki til að hafa á dagskrá óundirbúnar fyrirspurnir? Af hverju eru þessi vandræði. Af hverju er ekki bara hægt að verða við óskum þingmanna um að fá að spyrja ráðherra, handhafa framkvæmdarvaldsins, um embættisathafnir þeirra?