143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil í fyrsta lagi segja að ég tel aðstæður nú mjög sambærilegar þeim þegar sett voru lög á boðað verkfall flugvirkja árið 2010 sem síðasta ríkisstjórn, sem hv. þingmaður átti sæti í, setti. Ég sé í raun ekki, þótt tímarnir séu aðrir, að aðstæður séu svo frábrugðnar.

Hv. þingmaður velti því hér upp og spurði ráðherra vinnumála hvort meiningin væri að veita sáttasemjara auknar heimildir til að fresta vinnustöðvun eins og heimild er til á öðrum Norðurlöndum, m.a. í Noregi og Danmörku, eða veita honum jafnvel heimild til að setja málið beint í gerðardóm.

Þetta er að sjálfsögðu inngrip í frjálsa samninga sem aðilar á vinnumarkaði hafa. Ég spyr því hv. þingmann hvort hún sé sammála því mati mínu að nauðsynlegt sé að setja slík ákvæði í íslensk lög. Mun Vinstri hreyfingin – grænt framboð styðja slíka lagasetningu á Alþingi?