143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:13]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt í öllum þessum málum að mér finnst rétt að meta aðstæður hverju sinni. Það er mjög erfitt að bera saman þær verkfallsaðgerðir og þær aðstæður sem uppi voru þá á sínum tíma, sem hv. þingmaður vísaði til, við Herjólfsdeiluna og deilu við atvinnuflugmenn. Það eru kannski mest líkindi á milli þess sem við ræddum hér síðast, um atvinnuflugmenn, og þess sem nú er í gangi hjá flugvirkjum. En eins og ég sagði vil ég horfa á hvert og eitt mál út frá því sjálfu, getum við sagt, horfa á það sem einstakt mál, og þannig á það vera.

Hvað varðar hitt þá var það það sem ég kallaði eftir í ræðu minni. Ég er ekki að fara að lofa stuðningi við einhverja lagasetningu fram í tímann en við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum svo sannarlega reiðubúin til að skoða slíkar hugmyndir af fullri alvöru, þ.e. hið norræna vinnumarkaðslíkan þar sem samningar eru mun færri, þar sem ríkissáttasemjari hefur þær auknu heimildir frá því sem hér er, enda er ekki litið á hann sem hið pólitíska vald.

Það er talsverður munur á því að Alþingi Íslendinga stígi með þessum hætti inn í deilur aðila á vinnumarkaði og því að ríkissáttasemjari, sem er ekki hluti af hinu pólitíska valdi og á ekki að vera það, geri það. Við munum því skoða það með opnum huga en ég kalla eftir kortlagningu. Ég kalla eftir því að gerður sé samanburður á vinnumarkaðsmálum milli þeirra ríkja sem við berum okkur helst saman við, bæði á Norðurlöndunum og í Evrópu, þannig að við getum tekið upplýsta afstöðu.