143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að koma hér upp og leitast við að svara fyrirspurnum mínum. Mig langar að spyrja í framhaldinu hvort hún telji ekki rétt að lagaumhverfi vinnumarkaðsmála sé skoðað líka í víðfeðmara samhengi, þ.e. ekki bara hvernig það er annars staðar á Norðurlöndum heldur líka annars staðar í Evrópu. Það virðist vera að þar sé aðeins önnur menning, án þess að ég hafi kynnt mér það út í hörgul. Það væri mjög áhugavert, held ég, fyrir okkur sem þurfum að taka afstöðu til þessara mála að fá þann samanburð.

Ég vil líka spyrja, í ljósi þess að mér heyrist að einhver kortlagning sé að fara af stað hjá hæstv. ráðherra, hvort hún sjái fyrir sér að fulltrúar stjórnmálaflokka og aðilar vinnumarkaðarins verði kallaðir til samráðs á haustdögum til að fara yfir þessi mál.