143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:40]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var tvennt í þessari ræðu sem mér fannst stangast algjörlega á við ræðu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur. Í fyrsta lagi var það fullyrðing hennar um að hvert og eitt mál yrði að vega og meta sjálfstætt. Ég get ekki skilið hv. þm. Árna Pál Árnason öðruvísi en á þann veg að við hefðum ekki átt að setja lög á deilu undirmanna á Herjólfi vegna þess að aðrar kjaraviðræður væru í gangi, við hefðum bara átt að láta það liggja og stöðva þar með samgöngur til Vestmannaeyja sem hefðu skaðað það samfélag gríðarlega eins og við vissum. Ég skil hv. þingmann þannig að það þurfi að vega og meta þetta heildstætt miðað við þau orð sem hann hafði hér áðan en ég er ósammála þeim. Ég vil bara koma því á framfæri.

Í annan stað langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur þegar hún beinir því til ríkisstjórnarinnar að skoða lögin um sáttasemjara, veita honum auknar heimildir, til að mynda til að setja mál beint í Kjaradóm. Þetta er fyrsta spurningin.

Önnur lýtur að Kjaradómi almennt, hvort hann telji ekki mikilvægt að leysa deilur af þessu tagi í Kjaradómi þegar ljóst er að aðilar ná ekki saman. Þar á að gæta fulls jafnræðis á milli aðila. Ég vonast til þess að fá svör við þessum tveimur spurningum.