143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[16:55]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun greiða atkvæði gegn þessari lagasetningu. Sú umræða sem hér hefur farið fram er að hluta til tæknilegs eðlis og lýtur að gangverki samningaviðræðna er góðra gjalda verð og á vissulega heima í þessum sal, en sú ákvörðun sem menn eru að taka er af pólitískum toga. Ef stjórnmálamenn ætla að skerða verkfallsréttinn, þrengja hann eða afnema hann á að segja það hreint út. Það gerði Margaret Thatcher á sínum tíma. Eitt fyrsta verk hennar þegar hún kom í stól forsætisráðherra Bretlands undir lok áttunda áratugar síðustu aldar var að leggja til atlögu við verkalýðshreyfinguna.

Ég er með hinum frjálsa markaði, sagði Thatcher, og ég mun reyna að koma einokunarhringjum fyrir kattarnef, ég vil alla vega veikja þá mjög. Og ég mun byrja á versta einokunarhringnum af þeim öllum og það er verkalýðshreyfingin, þar sem fólk hefur sameinast um ákvörðun á kjörum í samningum, bæði launakjörum og öðrum kjörum.

Og hún gerði þetta. Á næstu árum veiktist verkfallsrétturinn verulega í Bretlandi að hennar undirlagi og breska íhaldsins illu heilli, því að afleiðingarnar voru illar.

Nú eru þessar raddir farnar að heyrast aftur. Þær heyrðust á þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í Genf síðustu daga og síðustu vikur á þinginu sem þar var haldið. Þar var að nýju tekinn upp þráður sem hafði verið ofinn á þinginu 2012 þar sem samtök atvinnurekenda sameinuðust um að vega að verkfallsréttinum sem slíkum. Þetta varð þess valdandi að óvenju fá mál voru afgreidd frá því þingi vegna þess grundvallarágreinings sem kominn var upp og hefur verið kraumandi síðustu tvö árin. Við erum því að verða vitni að þróun sem er ekki aðeins bundin við Ísland heldur á sér stað víða um heiminn.

Nú er ég ekki að halda því fram að þetta sé stefna íslensku ríkisstjórnarinnar. Hún hefur þvert á móti sagt að lög á verkföll séu undantekning, undantekningin sem eigi að sanna regluna. En þegar undantekningarnar verða svo tíðar að þær eru að verða að reglu er ástæða til að staldra við. Það þurfum við að gera nú.

Verkfallsvopnið er gríðarlega mikilvægt vopn og það á að beita því í réttlætisskyni. Ég er fylgjandi réttlátum verkföllum. Ég veit að það eru líka til ranglát verkföll, ég hef ekki verið sáttur við öll verkföll. En ég segi: Ef við ætlum að greina þarna á milli og skerða þennan almenna rétt þurfum við að hugsa málið alveg til enda. Menn hafa sagt í fjölmiðlum og hvíslað hér á göngum að þeir sem núna standi í verkfallsdeilu séu hálaunastétt með um hálfa milljón á mánuði og stundum miklu, miklu meira. Að sjálfsögðu þegar unnið er um helgar og á næturnar, en ég veit ekki betur en að í þessum sal séu menn með á sjöunda hundrað þúsundir í grunnkaup og sumum finnist það ekkert of í lagt. Það er þetta samhengi sem við verðum að horfa til. Við verðum að horfa til samhengisins sem þessir aðilar hrærast í.

Þegar stjórnendur Finnair reyndu að færa niður kaupið hjá starfsmönnum þess flugfélags fyrir fáeinum vikum svaraði launafólkið að bragði: Já, við skulum gera það. Við skulum fallast á launalækkun tímabundið vegna þrenginga fyrirtækisins en þá byrjum við á ykkur. Við byrjum á bónusunum hjá toppunum og við skoðum efra lagið. Við skoðum líka hvað þeir fá í sinn hlut sem taka arð út úr fyrirtækinu.

Ég væri tilbúinn að íhuga skerðingu eða takmörkun á verkfallsrétti ef allt þetta væri undir, ef við byggjum til launakerfi þar sem sá hæsti væri aldrei með meira en þrisvar sinnum, skulum við segja, það sem sá lægsti ber úr býtum og að verkföll utan þess ramma væru óheimil. Ég væri til í að ræða það. En við erum ekki stödd í slíkum heimi, sá heimur er ekki til staðar.

Svo vil ég vekja athygli á einu enn, að verkföll snúast ekki bara um krónur og aura. Þau snúast um völd og áhrif og þau snúast um framkomu.

Ég minnist verkfalls opinberra starfsmanna 1984, það stóð í þrjár eða fjórar vikur. Laun voru hækkuð um 30%. Strax og verkfallinu lauk var þessi launahækkun numin brott nánast í einu vetfangi með gengisfellingu. En það var eitt sem hafði breyst. Það var hætt að skipa skriftunum á sjónvarpinu að sækja kaffi fyrir toppana eða stjórnendur. Menn komu fram á annan hátt en áður var. Það er til þessa sem við hljótum að horfa núna í samfélaginu, í samfélagi sem hlustaði á talsmenn atvinnurekenda, sem líka eru forsvarsmenn í Icelandair, tjá sig um kröfur lægstlaunaða fólksins á Íslandi þegar það vildi þoka launum sínum yfir 200 þús. króna markið og sögðu að hér væri allt að fara á annan endann ef það næði fram að ganga. Þetta voru mennirnir sem voru ekki tilbúnir að lækka við sjálfa sig en fagna því núna þegar setja á lög á þessa stétt. Þetta er samhengið sem við verðum að horfa til.

Ríkisstjórnin segist horfa til almannaréttar og ég er ánægður að hæstv. innanríkisráðherra sé hér í salnum, sem jafnframt er dómsmálaráðherra landsins, yfirmaður löggæslunnar. Hvernig gætir hún almannahags við Leirhnjúk og í Námaskarði þar sem menn eru farnir að hafa peninga af ferðamönnum í trássi við landslög? Það er gert líka við Kerið í Grímsnesi. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í því til að verja almannahag? Hún er tilbúin að setja lög á löglega boðað verkfall vélvirkja, hún var tilbúin að gera það áður vegna verkfallsaðgerða á Herjólfi og á aðrar stéttir en hún lætur þetta allt saman óátalið. Þarna fara í rauninni ekkert annað en stigamenn sem stöðva ferðamenn og hafa af þeim með ólögmætum hætti fjármuni, peninga. Þetta er kallað stuldur, þetta er þjófnaður. Og við höfum komið okkur upp lögreglu í þessu landi til að gæta hags borgaranna, almannahags.

Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í þessu efni? Var það þetta sem hún óttaðist að yrði spurt um ef leyfður hefði verið fyrirspurnatími eins og stjórnarandstaðan óskaði eftir? Var það þetta sem hún vildi forðast, vildi hún forðast þessa umræðu? Við getum haft mismunandi skoðanir á því hvort heimila eigi einkaaðilum að taka gjald af ferðamönnum í ábataskyni, við getum deilt um það í þinginu og ríkisstjórnin getur reynt að koma í gegn lögum þar að lútandi. Ég væri ekki hlynntur slíku, en við getum deilt um það. En samkvæmt núgildandi lögum í landinu er þetta bannað og það er verið að brjóta lögin og ríkisstjórnin gerir ekki neitt. Það er búið að tala um þetta aftur og ítrekað í allan vetur. Hvers konar vesaldómur er þetta? Ég fer fram á það að hæstv. innanríkisráðherra, sem fer með vald dómsmálaráðherra í landinu, svari okkur því hvernig á þessu stendur.

Hæstv. ferðamálaráðherra lýsti því meira að segja yfir að gjaldtakan i Kerinu gengi alveg prýðilega og samt er bent á að þetta standist ekki landslög. Ætlar ríkisstjórnin að skella skollaeyrum við þessu og láta sér það eitt nægja að kalla þingið saman um hásumarið til að setja lög á eina stétt?

Ég er ekki að gera lítið úr því, hæstv. forseti, að verkfall í ferðaþjónustunni, í flugþjónustunni hefur miklar og alvarlegar afleiðingar, ég geri ekki lítið úr því, alls ekki. En við skulum heldur ekki gera lítið úr því ef við ætlum að hafa af launafólki þennan grundvallarrétt. Þar horfum við langt, langt inn í framtíðina. Og þá gengur ekki að staðnæmast við eitt tilvik af þessu tagi. Það má ekki gera það, enda eru tilvikin að verða fleiri. Og ég trúi því að hæstv. innanríkisráðherra hafi meint það, ég þykist vita að hún hafi meint það þegar hún sagði: Ég vona að þetta verði undantekning frá almennri reglu, þegar lögin voru sett síðast. Ég efast ekki um það. En ef haldið er áfram á þessari braut endum við með því að skerða þessi réttindi og hafa þau af fólki. Við getum einblínt á það hvað er hugsanlega hægt að gera með tæknilegri aðkomu ríkissáttasemjara, en málið er allt annað og miklu stærra, það er pólitískt. Það snýst um launakjör og jöfnuð í landinu. Og það er miklu eðlilegra að sú umræða, pólitíska umræðan, fari fram hér á vettvangi stjórnmálanna en í lokuðum salarkynnum embættismanna.

Ég er ekki þar með að blása út af borðinu fyrir mitt leyti breytingar á fyrirkomulagi við samninga. Þar hafa menn vísað til þess sem gerist á Norðurlöndum, mér finnst sjálfsagt að taka slíka umræðu upp. En þetta mál er miklu, miklu stærra og snýr að grundvallarréttindum, þeirri umræðu sem við urðum vitni að í Genf á dögunum þar sem atvinnurekendasamtökin eru farin að vefengja þennan grundvallarrétt launafólks í heiminum og Íslendingar eru að ríða á vaðið með því að hafa réttindin af, naga þau af fólkinu.

En fyrst, hæstv. ráðherra, viljum við fá að heyra svör ráðuneytisins, ráðuneytis dómsmála, við þessari grundvallarspurningu: Hvers vegna komast einstaklingar í trássi við lög upp með að hafa fé af ferðamönnum?