143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:14]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu þarf að vega hvert og eitt tilvik, það er ekkert óeðlilegt að umræða fari fram um slíkt. En þegar við verðum vitni að því að það er að verða til mynstur sem var Herjólfsdeilan og flugstjórarnir og síðan flugvirkjarnir núna, við erum búin að hlusta á sömu ræðurnar hérna í öllum þessum tilvikum, segi ég að það er ástæða til að hafa af því áhyggjur.

Já, ábyrg stjórnarandstaða. Ég er að færa rök að því að það sé ábyrgð í því fólgin að hafa grundvallarréttindi af fólki. Við höfum komið okkur saman um það hvernig við ákvörðum kaup og kjör. Fólk hefur réttinn til að mynda félög, það hefur réttinn til þess að leggja niður vinnu, inna ekki vinnuframlag af hendi ef það sættir sig ekki við þau kjör sem í boði eru. Þetta er allt samkvæmt ákveðnum reglum. Ef við ætlum að taka þetta gangverk allt úr sambandi mun það hafa afleiðingar. Það gerði það í Bretlandi. Margaret Thatcher sagðist vera að stuðla að félagafrelsi, fólk ætti að geta staðið utan verkalýðsfélaga og samið sem einstaklingar á markaði. Þessi meinta mannréttindabarátta snerist fljótt upp í andhverfu sína vegna þess að atvinnurekandinn sagði: Ég skal ráða þig til starfa — og atvinnuleysið var mikið — en það er bara eitt skilyrði: Þú stendur utan verkalýðsfélaga og utan þeirra réttinda sem þú hefur.

Ég er því að segja: Það er ábyrgð í því fólgin að standa vörð um þessi réttindi annars vegar og það er líka ábyrgð í því fólgin (Forseti hringir.) að nema þau brott.