143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:16]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ábyrgð í því fólgin að verja þessi réttindi, ég er sammála hv. þingmanni um það. Það er líka ábyrgð í því fólgin að nema þau brott, jafnvel stærri ábyrgð.

Við stöndum frammi fyrir þeirri ákvörðun hér á Alþingi, rétt eins og síðasta ríkisstjórn, að vega og meta þá almannahagsmuni sem eru í húfi verði verkfallið að veruleika. Og það eru ríkir almannahagsmunir að mínu mati, jafn ríkir og voru fyrir hendi fyrir um fjórum mánuðum síðan. Það er ekki létt verk.

Ég lít á ræðu hv. þingmanns sem einhvers konar aðvörun um að við megum ekki taka þetta gangverk úr sambandi. Ég kýs að líta á þessa ræðu sem jákvæða gagnrýni á þá lagasetningu sem rædd er hér í dag. En ég get fullvissað hv. þingmann um það að hér er ekki um að ræða neins konar mynstur. (Forseti hringir.) Við stöndum hins vegar frammi fyrir því, vegna tilviljunar, (Forseti hringir.) að við þurfum að koma hér því miður oftar en hver maður vill og setja lög á verkfall til þess að gæta einmitt að þessum ríku almannahagsmunum.