143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:27]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Forseti telur sig hafa rækt býsna vel samráð við þingflokksformenn eins og vera ber. Samstarf þingflokksformanna og forseta hefur almennt verið gott það sem af er þingi.

Varðandi þennan tiltekna þingfund í dag var það mat forseta að ekki væri ástæða til að kalla saman fund með þingflokksformönnum, í fyrsta lagi í ljósi þess að til fundarins er boðað til að fjalla um fyrirhugaðar verkfallsaðgerðir flugvirkja sem starfa hjá Icelandair og eiga að hefjast á morgun, eins og kemur fram í forsetabréfi sem gefið var út síðdegis í gær. Í öðru lagi lá fyrir að farið hefði fram samráð af hálfu hæstv. innanríkisráðherra við forustumenn stjórnmálaflokkanna um þessi mál, a.m.k. samtöl. Það er hins vegar svo, hvað varðar samráðið sem hv. þingmaður vísar til, í 86. gr., að það verður að leggjast að nokkru leyti í mat forseta hverju sinni með hvaða hætti hann telur ástæðu til að boða til þingflokksformannafunda.

Þó að hér sé um að ræða stórt mál að efni til er skipulag þessa þingfundar ekki þannig að forseti hafi talið ástæðu til að kalla saman þingflokksformenn til að undirbúa fundinn að öðru leyti. Forseti telur sig þar með hafa svarað þeirri spurningu sem fyrir hann var lögð.