143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg þetta upphlaup stjórnarandstöðunnar. Þau virðast ekki gera athugasemdir við efnið, um hvort samráð hafi verið haft — forseti hefur jú upplýst að það hafi verið viðhaft — heldur hvernig formið á því hafi verið, að þingflokksformenn hafi ekki verið boðaðir þrátt fyrir að samband hafi verið haft við formenn flokkanna.

Ég held að ástæðan fyrir því liggi í því að minni hlutinn vill hafa fleiri mál á dagskrá. Ég er þeirrar skoðunar að þar með sé minni hlutinn að misnota aðstöðu sína. Minni hlutinn kallaði eftir því, og við því var orðið, að þing yrði kallað saman í stað þess að sett yrðu bráðabirgðalög af hálfu ríkisstjórnarinnar. Um leið og menn fá slíkt fram skal hér hafa reglulegt þinghald, setja fullt af málum á dagskrá, (Forseti hringir.) sem mér finnst afar ósanngjarnt, vegna þess að það er algjör undantekning að þing sé kallað saman, (Forseti hringir.) það var eingöngu gert til að fjalla um þetta eina tiltekna mál.