143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:48]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni viðvörunarorð í garð okkar allra, allra þingmanna, um að við þurfum að gæta að verkfallsréttinum. Ég er sammála því. En ég verð að viðurkenna, eins og ég hef bent á ítrekað, að mér finnst ósanngjarnt þegar menn eru annars vegar sammála því sjónarmiði að það eigi að vega og meta hvert einstakt tilvik en koma á hinn bóginn og segja að menn þurfi að skoða þessa deilu út frá þeirri ákvörðun sem við tókum í Herjólfsdeilunni. Mér finnst það ósanngjarnt.

Ég velti því fyrir mér: Ef það er rétt að Herjólfsdeilan hafi haft svona mikil áhrif, áttum við þá að taka aðra ákvörðun í Herjólfsdeilunni? Áttum við að leyfa yfirvinnubanninu að vara lengri tíma þegar búið var að benda á það að þeir almannahagsmunir sem ættu við þetta samfélag, Vestmannaeyjar, væru orðnir mjög ríkir, bannið væri farið að skaða innviði samfélagsins? Það var ítrekað bent á þetta og færð fyrir því rök. Ef við hefðum beðið í tvær, þrjár vikur í viðbót, jafnvel alveg fram í maíbyrjun, hefði það breytt áliti hv. þingmanns á því að taka ákvörðun um að setja lög á Herjólfsdeiluna?

Ég er þeirrar skoðunar og ítreka það að við verðum að vega og meta hvert einasta tilvik algjörlega óháð öðru, því miður, það er þannig. Ég tek undir með hæstv. innanríkisráðherra að það stígur enginn þau skref með ánægju að koma hér og setja lög á verkföll, enginn, ekki nokkur maður, aldrei, ætla ég að leyfa mér að fullyrða.

Ég vil (Forseti hringir.) spyrja hv. þingmann: Hvernig hefðum við átt að tækla Herjólfsdeiluna öðruvísi en við gerðum?