143. löggjafarþing — 123. fundur,  18. júní 2014.

frestun verkfallsaðgerða Flugvirkjafélags Íslands gegn Icelandair.

616. mál
[17:52]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar alþingismenn þurfa að vega og meta þá almannahagsmuni sem eru til staðar á hverjum tíma geta þeir ekki leyft sér að velta því fyrir sér hvaða staða getur komið upp í framtíðinni, hvort það séu einhverjar aðrar kjaradeilur fram undan sem gætu farið í hnút. Þess vegna held ég að það sé rétt hjá þingmönnum sem koma hér upp trekk í trekk og segja að það þurfi að vega og meta hvert einasta tilvik sjálfstætt. Það er útgangspunkturinn.

Hv. þingmaður segir að það hefði átt að leyfa Herjólfsdeilunni að lifa í tvær vikur, en hvað þá? Átti þá að setja lög á verkfallið? Hefði hann þá verið kominn á þá skoðun að það væri búið að skaða samfélagið í Vestmannaeyjum svo mikið að ríkir almannahagsmunir væru í húfi, jafnvel þó að það hefði legið fyrir á þeim tíma sem lagasetningin var gerð að það væri engin lausn í sjónmáli, engin? Ríkissáttasemjari mat það þannig að engin lausn væri í sjónmáli. Eigum við þá að láta samfélagið bíða lengur? Nei, það getum við ekki gert.

Það er erfið ákvörðun, virðulegi forseti, að vega og meta þessa ríku almannahagsmuni, en ég er þeirrar skoðunar, vegna þess að ég þekki það af eigin raun, að þegar samgöngur lokast, hvort sem það er við landið eða út á land eða milli landshluta hefur það gríðarlega neikvæð áhrif á búsetu, á atvinnustarfsemi, á lífsgæði, heilsu og allt annað.

Þess vegna, því miður, virðulegi forseti, verðum við að koma hér á Alþingi og setja þessi lög, gera þá undantekningu sem allir eru að sjálfsögðu sammála um að verði að vera fyrir hendi.